Bjarni Þór Hauksson A-landsliðsmaður í alpagreinum sigraði á alþjóðlegu móti í svigi í Geilo í Noregi í dag 9. desember. Bjarni sem er búsettur í Geilo og stundar þar nám og æfingar við skíðamenntaskóla (NTG) gerði sér lítið fyrir og sigraði með yfirburðum eða 1.46 sek en það voru 125 keppendur sem hófu keppni. Fyrir mótið fékk Bjarni 33.09 FIS punkta en það eru hans bestu punktar ferlinum.
Matthías Kristinsson endaði í 5. sæti og Tobias Hansen í 35. sæti en þeir eru einnig í A-landsliðinu. Það voru fleiri landsliðsmenn sem tóku þátt en þeir luku því miður ekki keppni.
SKÍ óskar Bjarna Þór og Matthías til hamingju með árangurinn.