Keppt var í einni keppnisgrein á HM í alpagreinum í dag sem var stórsvig karla. Eftir undankeppnina sem fór fram í gær var ljóst að Gauti Guðmundsson myndi keppa fyrir Íslands hönd í dag. Aðstæður voru mjög krefjandi, brautin ísilögð og miklar beygjur. Gauti var með rásnúmer 78 en til þess að komast í seinni ferð þurfti Gauti að klára fyrri ferð í topp 60. Gauti gerði gott betur og náði 56. besta tíma í fyrri ferð. Í seinni ferð kleif Gauti svo enn hærra upp listann og endaði í 45. sæti af þeim 100 keppendum sem hófu keppni í dag.
Heildarúrslit í stórsvigi karla má finna hérna
Á morgun laugardaginn 18. febrúar er keppt í tveimur greinum og eiga Íslendingar þáttakendur í þeim báðum.
Katla Björg Dagbjartsdóttir keppir í aðalkeppni í svigi kvenna klukkan 09:00 að íslenskum tíma og er keppnin sýnd beint á RÚV 2. Útsending hefst kl. 08:50 og er lýst af Jakobi Helga Bjarnasyni. Katla Björg er með rásnúmerið 59 og þarf líkt og Gauti gerði í dag að vera meðal 60 fyrstu í fyrri ferð til að fá að fara seinni ferð.
Úrslit og lifandi tímataka í aðalkeppni í svigi kvenna má finna hér.
Í undankeppni karla í svigi keppa þeir Gauti Guðmundsson og Jón Erik Sigurðsson. Keppni hjá þeim hefst einnig klukkan 09:00 að íslenskum tíma. Gauti er með rásnúmerið 38 og Jón Erik er með rásnúmerið 58 og þurfa þeir að enda meðal 25 efstu til að komast áfram í aðalkeppnina.
Úrslit og lifandi tímataka í undankeppni í svigi karla má finna hér.