Anna Kamilla og Arnór Dagur á palli í Landgraaf

Landsliðið í snjóbrettum byrjaði keppnistímabilið þegar þau kepptu á alþjóðlegum FIS mótum í Landgraaf í Hollandi 3.-5. október. 

Tímabilið fór heldur betur vel af stað hjá þeim Önnu Kamillu Hlynsdóttur og Arnóri Degi Þóroddssyni. Anna Kamilla endaði í 3. sæti í fyrsta mótinu í brettastíl (slopestyle) og fékk fyrir það 40.70 FIS stig og í seinna brettastílsmótinu náði hún 2. sætinu og fékk fyrir það 49.30 FIS stig sem er töluverð bæting og hefur fleytt henni upp á World Snowboard Points List. Anna Kamilla er núna í 78. sæti á heimslista í brettastíl sem er besti árangur sem íslensk kona hefur náð í þessari grein. 

Arnór Dagur náði 2. sæti í fyrra mótinu í brettastíl og fékk fyrir það 49.70 FIS stig og var hann bara hársbreidd frá sigrinum. Arnór Dagur rauk einnig upp World Snowboard Points List og er núna í 122. sæti í brettastíl. Á seinna brettastílsmótinu náði hann að komast í úrslit en lendingarnar voru eitthvað að stríða honum og endaði hann í 10 sæti. 

Landsliðið keppti einnig í rail event í Landgraaf og náðu Arnór Dagur og Vildís Edwinsdóttir að komast í úrslit og endaði Arnór Dagur í 9. sæti og Vildís í 6. sæti.

Sjá öll úrslit hér

Skíðasamband Íslands óskar þeim til hamingju með glæsilegan árangur.