Landsliðsfólk SKÍ í alpagreinum heldur áfram að gera góða hluti á alþjóðlegum FIS mótum víðsvegar um Evrópu.
Sturla Snær Snorrason, skíðamaður úr Ármanni, náði um helgina 5. og 8. sæti á tveimur svigmótum í Oberjoch í Þýskalandi. Rúmlega 50 keppendur voru á mótunum og margir sterkir keppendur skráðir til leiks. Sturla hlaut fyrir árngurinn 46.34 og 36.89 FIS stig, sem er nálægt hans besta árangri í svigi. Úrslitin úr mótunum tveimur má sjá hér og hér.
Georg Fannar Þórðarson, skíðamaður úr Víkingi, keppti í tveimur risasvigsmótum í Passo San Pellegrino á Ítalíu í síðustu viku. Georg náði þar fínum árangri og landaði 41. og 42. sætinu í mótunum tveimur, af um 75 keppendum. Fyrir það hlut hann 134.15 og 115.32 FIS stig í risasvigi, sem er talsverð bæting á heimslista. Úrslitin úr mótunum tveimur má sjá hér og hér. Georg keppti svo einnig á svigmóti í Rosskopf Monte Cavallo á Ítalíu, en þar náði hann frábærum árangri með því að ná 7. sæti af um 30 keppendum. Fyrir þann árangur hlut Georg 71.51 FIS stig í svigi, sem er mikil bæting á heimslista, en fyrir var Georg með 84.06 FIS stig þar. Úrslitin úr mótinu má sjá nánar hér.
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, skíðakona úr Ármanni, keppti um helgina á tveimur stórsvigsmótum í Klövsjö í Svíþjóð. Hólmfríður náði þar fínum árangri og náði 10. og 13. sæti í mótunum tveimur, af um 95 keppendum. Fyrir árangurinn hlaut hún 71.74 og 65.54 FIS stig, sem er þó örlítið frá hennar besta árangri í greininni. Úrslitin úr mótunum tveimur má sjá hér og hér.
Sigríður Dröfn Auðunsdóttir, skíðakona úr ÍR, keppti á tveimur risasvigsmótum í Passo San Pellegrino á Ítalíu og náði þar 19. og 22. sæti af um 40 keppendum. Þessi árangur gaf Sigríði 131.89 og 119.99 FIS stig í risasvigi, sem er mikil bæting á heimslita, en fyrir var hún með 141.28 FIS stig í greininni. Úrslitin úr mótunum tveimur má sjá hér og hér. Sigríður keppti svo í dag á stórsvigsmóti í Seefeld í Austurríki og hafnaði þar í 28. sæti af 66 keppendum. Fyrir árangurinn hlaut hún 85.39 FIS stig í stórsvigi, sem er bæting á heimslista. Katla Björg Dagbjartsdóttir, skíðakona úr SKA var einnig á meðal keppenda í þessu móti í dag, en féll því miður úr keppni í fyrri ferðinni. Úrslitin úr mótinu má sjá nánar hér.