Í dag hófst keppni á HM í skíðagöngu í Seefeld í Austurríki, með undankeppni karla og kvenna.
Kristrún Guðnadóttir var eini íslenski keppandinn í undankeppni kvenna, sem var 5 km ganga með hefðbundinni aðferð. Kristrún náði mjög góðri byrjun og var framan af í einu af tveimur efstu sætunum en gaf svo heldur eftir á því sem leið á. Hún kom í mark á tímanum 17:40,1 og náði þar með 7. sætinu sem tryggði hana áfram uppúr undankeppninni og sæti í öllum aðalkeppnum í lengri vegalengdum mótsins. Nokkur óvissa ríkti um tíma hjá mótshöldurum um hvort að þeir keppendur sem væru í 10 efstu sætunum kæmust allir áfram eða bara þeir með tilskildan FIS stigafjölda. Eftir athugasemdir frá nokkrum þjóðum, þ.á.m. Íslandi kom loks í ljós að svo varð raunin og Kristrún því komin áfram. Kristrún hlaut 226.99 FIS stig fyrir mótið í dag, sem er aðeins frá hennar besta árangri.
Úrslitin úr undankeppni kvenna
Albert Jónsson og Dagur Benediktsson kepptu einnig fyrir Íslands hönd í undankeppni karla, sem var 10 km ganga með hefðbundinni aðferð. Báðir byrjuðu þeir kepnnina mjög vel og héldu góðum dampi og voru meðal efstu manna allan tímann. Svo fór að Dagur kom í mark á tímanum 29:05,6 í 6. sæti og Albert gerði sér lítið fyrir og kom í mark á tímanum 28:25,2 sem skilaði honum í 3. sæti og því á veðlaunapall í mótinu. Albert og Dagur komust því báðir uppúr undankeppninni og eru því komnir með sæti í öllum aðalkeppnum mótsins í lengri vegalengdum. Báðir náðu þeir að bæta stöð sína talsvert á heimslistanum, Dagur hlaut 132.22 og Albert 112.95 FIS stig með árangri sínum í dag.
Sannarlega glæsilegur árangur hjá þessu unga og efnilega skíðafólki okkar hér í Seefled í dag!
Á morgun verða svo fimm íslenskir keppendur í eldlínunni í sprettgöngu karla og kvenna, þau Kristrún Guðnadóttir, Albert Jónsson, Dagur Benediktsson, Isak Stiansson Pedersen og Ragnar Gamelíel Sigurgeirsson. Hefst sú keppni á undanrásum, kl. 11:00 og verða úrslitin svo í kjölfarið kl.13:30, allt að íslenskum tíma. Fylgjast má með gangi mála hér
Við tókum þau Kristrúnu, Dag og Albert tali að mótinu loknu í dag: