Albert Jónsson er fæddur 11. maí 1997. Hann býr í Lillehammer í Noregi þar sem hann æfir og keppir í skíðagöngu með Lillehammer skiklub. Albert er einn þeirra skíðagöngumanna sem stefnir á að ná lágmörkum fyrir vetrarólympíuleikana í Peking í Kína sem fara fram í febrúar 2022. Albert fór fyrst á gönguskíði 6 ára gamall og eftir því sem við höfum fyrir satt fannst honum það puð og alls ekki skemmtilegt. Það breyttist þó fljótt og byrjaði hann að æfa með Skíðafélagi Ísfirðinga enda kemur hann úr mikilli skíðagönguætt. Albert hefur þrisvar sinnum keppt á HM fullorðinna og var kjörinn íþróttamaður Ísafjarðar árin 2017 og 2020.
Á síðasta keppnistímabili keppti hann á 16 alþjóðlegum skíðamótum og þar á meðal á heimsmeistaramótinu í Oberstdorf í Þýskalandi. Albert endaði 6 sinnum meðal 10 efstu manna á þessum alþjóðlegu mótum og þar af 2 sinnum á verðlaunapalli.
Albert er með 95.76 FIS-punkta í DI og er númer 730 á heimslista í þeirri grein. Þó svo Skíðasamband Íslands styðji Albert fjárhagslega sem A-landsliðsmann við að ná markmiðum sínum þá er hann einnig studdur dyggilega af fjölskyldu sinni. Albert gengur á Madshus skíðum og notar einnig Madshus skó en stafirnir eru frá Leki. Keppnisfatnaðurinn kemur frá noname, undirfatnaðurinn frá X-Bionic og hlífðarfatnaðurinn frá 66°Norður.