Stjórn Skíðasambands Íslands hefur tekið þá ákvörðun að öllum SKÍ mótum (bikar-, Íslands-, og alþjóðlegmót) verði frestað og engin mót haldin á meðan samkomubann yfirvalda stendur yfir. Stefnt er að hefja keppni á nýjan leik þegar samkomubanni lýkur þann 13.apríl, að því gefnu, að það verði ekki framlengt. Þar sem ekki liggur fyrir hvernig næstu dagar, hvað þó vikur, muni þróast hefur ný mótatafla ekki verið sett saman. Frekari útfærslur á mótunum verður gefin út þegar nær dregur.
Varðandi æfingar aðildarfélaga SKÍ þá gaf heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við mennta- og menningarráðuneytið út tilmæli fyrr í dag. Þau má sjá hér.
Úr yfirlýsingunni: Af þeim sökum og að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur. Eru skipuleggjendur þess hvattir til að halda uppi félagsstarfi með því að nýta sér tæknina til að halda utan um sína hópa og vera í sambandi við iðkendur og hvetja þá til virkni og hreyfingar eftir því sem við á.
SKÍ hvetur aðildarfélög sín til að fylgja tilmælum yfirvalda og ÍSÍ.