Það voru 13 iðkendur fædd árið 2007-2009 frá Ulli, SKA, SÓ, SFS og SFÍ sem fóru í 9 daga æfingarferð til Sjusjøen í Noregi sem er sannkölluð mekka skíðagöngufólks.
Aðstæður á svæðinu eru til fyrirmyndar og gisti hópurinn í íbúðum við skíðagöngubrautina sem gerði þetta enn betra. Þó svo að suma daga hafi verið ansi kalt í veðri þá var að mestu fallegt veður og æfði hópurinn tvisar á dag alla daga nema einn. Æfingar voru á morgnanna og svo í ljósum seinnipartinn eða á kvöldin.
Það var frábært að sjá hvað krakkarnir voru áhugasöm og dugleg því einnig þurftu þau nánast að sjá um eldamennsku og allt sjálf. Hópurinn náði vel saman og stóðu þau sig rosalega vel enda voru framfarir eftir því.
Það var gaman fyrir hópinn af fá landsliðsfóllkið okkar í skíðagöngu Kristrúnu og Fróða í heimsókn og kíktu þau á æfingar með hópnum.
Það voru þreyttir en glaðir krakkar sem komu heim eftir mjög vel heppnaða æfingarferð.
Þorsteinn Hymer sem sér um hæfileikamótun í skíðagöngu var þjálfari hópsins og aðstoðarþjálfari var Ólafur Thorlacius Árnason, skíðagöngukempa frá Ísafirði. Það er mikils virði fyrir SKÍ að geta leitað til jafn frábærra þjálfara og þeirra og fengið þá í verkefni sem þetta. Það var síðan Brynja Þorsteinsdóttir afreksstjóri SKÍ sem var farastjóri í ferðinni.
Hæfileikamótun er mikilvægur þáttur í bæði fræðslu- og útbreiðslustarfi hreyfingarinnar. Því er mikilvægt að ungu- og upprennandi skíða- og brettafólki séu boðin tækifæri til að þroska og þróa sína getu og hæfileika. Haldnar eru æfingabúðir fyrir allar greinar. Afreksstjóri SKÍ heldur utan um þetta verkefni en einnig hafa verið ráðnir aðilar til að halda utan um verkefni í öllum greinum eins og fram kemur hér að ofan.