47. Andrésar andar leikarnir í skíðaíþróttum verða haldnir af Skíðafélagi Akureyrar í Hlíðarfjalli við Akureyri dagana 19.-22. apríl 2023
Andrésarleikarnir eru stærsta skíðamót landsins með yfir 800 keppendur á aldrinum 4-15 ára ár hvert. Þeim fylgja þjálfara, fararstjórar, foreldrar og fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að um 3000 manns sæki leikana með einum eða öðrum hætti.
Andrésarleikarnir eru afar mikilvægur viðburður fyrir alla bæjarbúa, fyrirtækin í bænum, barnamenningu bæjarins, ásamt því að vera mikilvægasti einstaki vetraríþróttaviðburður sem fram fer hér á svæðinu á hverju ári.
Um langt skeið hefur verið keppt bæði í alpagreinum skíðaíþrótta sem og skíðagöngu, en árið 2012 var í fyrsta skipti keppt á snjóbrettum og hefur sú grein verið að eflast og stækka innan leikanna.
Einnig hefur verið keppt í svokölluðum stjörnuflokki s.l. u.þ.b. 10 ár, en þar keppa fatlaðir eða hreyfihamlaðir íþróttamenn.
Nú um nokkurra ára skeið hefur 4 og 5 ára börnum einnig boðið að taka þátt í leikunum. Þessi börn taka þátt í leikjabraut þar sem allt snýst um að vera með og skemmta sér, en ekki að sigra. Fá allir þátttakendur í leikjabraut verðlaun fyrir þátttökuna og allir fara því brosandi heim. Í ár eru 66 börn á þessum aldri skráð til leiks.
Eftir örlítið rysjóttan skíðavetur um allt land eru aðstæður í Hlíðarfjalli nú með góðu móti og snjómagn í meðallagi. Undirbúningur mótsins hefur staðið yfir síðan s.l. haust og búast mótshaldarar við miklu fjöri á leikunum í ár.
Andrésarleikarnir eru alltaf hápunktur hvers skíðavetrar hjá börnunum og marga sem þyrstir í að koma til Akureyrar og taka þátt í gleðinni.
Nú eru 817 börn skráð frá 15 félögum á Íslandi. Flestir iðkendur koma frá heimamönnum í Skíðafélagi Akureyrar eða 131 keppandi, en Ármann/Fram eru næst fjölmennastir með 97 þátttakendur. Í ár er metfjöldi að taka þátt í skíðagöngu á leikunum og eru 144 börn skráð þar til leiks. Alpagreina þátttakendur eru 606 og 78 taka þátt í snjóbretta greinum.
Að venju verða leikarnir settir í Íþróttahöllinni á Akureyri miðvikudagskvöldið 19. apríl að lokinni myndarlegri skrúðgöngu allra þátttakenda frá Lundarskóla/Íþróttasvæði KA kl. 19. Fimmtudag, föstudag og laugardag er svo keppt í öllum greinum, auk þess sem yngri þátttakendur fara í leikjabrautir. Veglegar kvöldvökur og verðlaunaafhendingar í Íþróttahöllinni eru í lok hvers keppnisdags.
Líflegur fréttaflutnignur verður á Facebook síðu leikanna auk þess sem úrslit og fleiri fréttir verða birt á www.skidi.is
Einnig hvetja mótshaldarar fjölmiðla til að kíkja í Hlíðarfjall og/eða í Íþróttahöllina og taka púlsinn á hressum þátttakendum á Andrés!
Sjá dagskrá leikanna til frekari upplýsinga.
Ef frekari upplýsinga er óskað:
www.facebook.com/andresarleikar
f.h. Andrésarnefndar SKA
Gísli Einar Árnason, gislieinar@gmail.com gsm: 862 8607