Skíðasamband Íslands gerir samstarfssamning við Justin de Graaf snjóbrettaþjálfara

Justin á Heimsmeistaramótinu í Sviss 2025
Justin á Heimsmeistaramótinu í Sviss 2025

Skíðasambandið samdi nýverið við Justin De Graaf frá Hollandi um að verða landsliðsþjálfari í snjóbrettum og mun því landsliðið æfa saman í vetur undir hans leiðsögn

Justin de Graaf á og rekur UNUO.pro sem er atvinnumanna snjóbrettalið, þannig að Skíðasambandið og UNUO.pro munu vera í samstarfi í vetur. Justin sér um allt skipulag, æfingar á snjóbretti, trampolíni og einnig styrktar og þrekþjálfun.

Nokkur orð frá Justin:

“Ég hef verið snjóbrettaþjálfari í 17 ár og er ótrúlega spenntur að takast á við þetta nýja hlutverk með íslenska snjóbrettalandsliðinu. Í gegnum tíðina hef ég fengið að vinna með börnum, unglingum og ungu fólki og það að hjálpa þeim að vaxa og þroskast sem íþróttafólk hefur alltaf verið mér hjartans mál. Íþróttir hafa fylgt mér allt mitt líf og ég er staðráðinn í að styðja við bakið á liðinu mínu og gera mitt allra besta til að hjálpa hverjum og einum að ná sínum markmiðum – og jafnvel meira en það.
Eins og er er ég að vinna að því með skandinavíska liðinu mínu að tryggja þeim þátttökurétt á Ólympíuleikunum á Ítalíu og eru líkurnar góðar að það takist. Mig dreymir einnig um að sjá íslenskan keppanda með á þeim lista í nánustu framtíð.”

Skíðasambandið er mjög spent fyrir þessu samstarfi og okkur líst rosalega vel á Justin og árangurinn sem hann hefur náð með sína iðkendur og einnig þá vinnu sem hann hefur nú þegar unnið fyrir SKÍ.

Skíðasambandið óskar Justin velkominn í SKÍ fjölskylduna og vonar að samstarfið verði afar farsælt.